Skoðun

Að skipta minnkandi köku

Sigrún Elsa Smáradóttir skrifar um verðtryggingu

Það hafa tapast verðmæti út úr hagkerfinu, kakan sem til skiptanna er hefur minnkað umtalsvert, eða kannski bara fallið þar sem hún var hol að innan. Því stöndum við frammi fyrir því verkefni hvernig skipta eigi minni köku. Þá er í mörg horn að líta.

Þegar litið er til húsnæðislána er nauðsynlegt að skoða hvernig skuldarar og lánveitendur skipta með sér minni köku. Það er einsýnt að fasteignaeigendur taka á sig eignarýrnun vegna lækkunar á fasteignaverði. En hver á að taka á sig rýrnunina á krónunni?

Í ljós hefur komið að krónurnar sem voru lánaðar voru bara alls ekki eins mikils virði og menn héldu. Það getur því ekki talist eðlilegt að falskt verðgildi „góðærisins" sé tryggt í gegnum verðtryggingu inn í kreppuna. Það er fullkomlega eðlileg krafa að lánveitandinn taki stóran hluta af þeim skelli með lántakandanum.

Það er ekki hægt að tala um að með frystingu verðtryggingar sé verið sé að færa peninga úr einum vasa í annan, því peningarnir sem á að færa eru ekki til og voru kannski bara til í þykjustunni.

Hins vegar er ljóst að ef ekkert verður að gert fá lánveitendur með verðtrygginguna að vopni heimild til að hrista úr öllum vösum heimilanna og leggja að veði allt sem þeir finna. Allt til að lánaðir peningar haldi þykjustuverðgildi sínu.

Það eru ekki til neinar töfralausnir þegar skipta á minnkandi köku það geta ekki allir haldið sínu. Spurningin er hvort eðlilegt sé að tryggja að annar hvor aðilinn haldi öllu sínu og rúmlega það með verðbótum og vöxtum meðan hinn tapar hugsanlega öllu sínu og rúmlega það eða á að dreifa skaðanum eins og frysting vertryggingar hefði í för með sér?

Framtíðarlausn undan verðtryggingunni er að sjálfsögðu upptaka evru og aðild að Evrópusambandinu. Ef það á ekki að gerast strax, sem væri best, er mikilvægt að verja heimilin fyrir efnahagstilraunum ríkisstjórnarinnar og skaðræðiskrónunni.

Höfundur er borgarfulltrúi.






Skoðun

Sjá meira


×