Innlent

Saknar nærveru Ingibjargar Sólrúnar

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinar er ekki viðstödd umræðu um breytingar á eftirlaunum æðsta ráðamanna þjóðarinnar. Kristinn H. Gunnarsson þingmaður sagðist sakna þess að Ingibjörg væri ekki á svæðinu.

Hann sagðist ósáttur með að frumvarpið væri tekið til umræðu síðustu dögum fyrir jól og seint um kvöld þegar minnstar líkur væru á því að einhver væri að fylgjast með.

Vísir fylgist þó með umræðunum og heyrði ræðu Kristinns sem sagði Ingibjörgu Sólrúnu hafa látið talsvert til sín taka í tengslum við málið og hafið uppi miklar fullyrðingar um innihald frumvarpsins.

„Það er erfitt að eiga samræðustjórnmál við þá sem eru fjarstaddir og ég fer fram á það við hæstvirtan forseta að þegar gera á þetta að lögum í næturmyrkri síðustu dögum fyrr jól, að hann sjái til þess að hægt verði að eiga orðastað og halda uppi umræðum við þá sem hafa hvað mest látið til sín taka."

Hann sagði Alþingi vera miðstöð pólitískrar umræðu.

Annars hefur fátt markvert komið fram í umræðum kvöldsins og bar einna hæst þegar Pétur H. Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir að honum fyndist að forsætisráðherra ætti að vera hæst launaðasti opinberi starfsmaðurinn.

Hann sagði einnig að ekki mætti gleyma því að þingmenn myndu greiða helling til þess að komast á þing. Í því samhengi átti hann við prófkjör og nefndi að hann sjálfur hefði greitt hátt í þrjár milljónir í sínu prófkjöri, hann hafi því unnið launalaust fram að jólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×