Viðskipti erlent

Ákvörðun tekin um sölu Kaupþings í Luxemborg á föstudag

Yves Leterme forsætisráðherra Belgíu reiknar með að ákvörðun um sölu Kaupþings í Luxemborg muni liggja fyrir á föstudaginn kemur. Leterme segir viðræður í gangi við kaupenda sem hafi verulegan áhuga á kaupunum.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem ráðherrann hélt um helgina og Reuters greinir frá. "Á föstudaginn kemur verður endanleg ákvörðun tekin um hvort þessi aðili gangi að tilboði sem liggur fyrir. Alvarlegar viðræður eru í gangi um eitt tilboð," segir Leterme.

Ennfremur kom fram í máli Leterme að fjórir aðilar hefðu sýnt því áhuga að kaupa aðeins starfsemi Kaupþing í Belgíu út úr bankanum í Luxemborg en starfseminni var stjórnað þaðan.

Samkvæmt einu af dagblöðum Belgíu er Keytrade Bank, dótturfélag hins franska Credit Agricole, meðal þeirra sem áhuga hafa á að kaupa belgíska hlutann af Kaupþingi.

Þeir sem áttu innistæður hjá Kaupþingi í Belgíu er bankinn fór í þrot eru byrjaðir að fá endurgreitt. Í fyrstu umferð verður það samkvæmt reglum ESB það er rúmlega 20.000 evrur á reikning. Um er að ræða 5.000 manns sem áttu reikninga hjá Kaupþingi í Belgíu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×