Viðskipti erlent

Markaðsvirði Storebrand minnkar um helming á mánuði

Markaðsvirði norska banka- og tryggingarfélagsins Storebrand hefur minnkað um helming á einum mánuði. Undir lok markaðarins í Osló í dag var hluturinn seldur á 10 norskar kr. sem er lægsta verð á hlutnum frá árinu 1993.

Bæði Kaupþing og Exista voru stórir hluthafar í Storebrand fyrir hrun bankakerfisins á Íslandi. Exista seldi 20% hlut sinn skömmu eftir hrunið með miklu tapi og Kaupþingshluturinn upp á 10% var settur í sölu af Royal Bank of Scotland um miðjan mánuðinn en sá bankinn var með veð í þeim hlut.

Samkvæmt frétt um málið á vefsíðunni E24.no er engin augljós skýring á þessari miklu lækkun á Storebrand undanfarin mánuð. Mest af lækkuninni hefur orðið á síðustu viku eða um 40%.

Helsta ástæðan fyrir þessum lækkunum er talin vera vaxtalækkanir í Noregi undanfarnar vikur í kjölfar stýrvaxtalækkana hjá norska seðlabankanum. Þessar lækkanir koma sér illa fyrir Storebrand sem segist tryggja viðskiptavinum sínum 3,5% ávöxtun á fé þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×