Viðskipti erlent

Olíutunnan í tvöhundruð dollara á næstu árum að mati sérfræðinga

Hækkunin gæti komið illa við pyngju bíleigenda.
Hækkunin gæti komið illa við pyngju bíleigenda.
Alvarlegur olíuskortur er handan við hornið og gæti tunnan farið yfir 200 dollara á tunnu að mati sérfræðihópsins Chatham house. Í nýrri skýrslu frá hópnum kemur fram að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að framleiðsla olíu aukist gæti skorturinn farið að gera vart við sig á næstu fimm til tíu árum. Í skýrslunni segir að næg olía sé enn til, en fyrirtæki og ríkisstjórnir fjárfesti ekki nóg í henni til að tryggja áframhaldandi framleiðslu. Það eina sem gæti komið í veg fyrir olíukreppuna sé algjört hrun á eftirspurn.

„Eini möguleikinn til að komast hjá þessum skorti virðist vera ef að meiriháttar efnahagslægð dregur úr eftirspurn - og það gæti jafnvel bara seinkað vandamálinu," hefur fréttastofa BBC eftir prófessor Paul Stevens höfundi skýrslunnar í The Coming Oil Crunch.

Hann varar við því að það dragi úr olíuframleiðslu, þar sem framleiðslufyrirtækin vilji fremur skila hluthöfum sínum arði en að endurfjárfesta honum í aukinni framleiðslu. Hann segir einnig að aukin "auðlinda þjóðernishyggja" þýði að ríkisstjórnir hindri vöxt opinberra olíufélaga sinna með því að meina erlendum olíufyrirtækjum að taka þátt í uppbyggingu þeirra.

Stevens segir að stjórnvöld þurfi að grípa í taumana vilji þeir afstýra vandanum, auka framleiðslu og lækka olíuverð. Um leið þurfi að styðja olíuútflytjendur og leyfa samtökum olíframleiðsluríkja, Opec, að leggja til í neyðarbirgðir alþjóða orkumálastofnunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×