Viðskipti erlent

RBS segir upp þrjú þúsund

Royal Bank of Scotland mun á næstu vikum segja upp 3000 starfsmönnum að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC. Tæplega 28 þúsund manns vinna hjá bankanum í dag.

Royal Bank of Scotland er með starfsemi í yfir 50 löndum og koma uppsagnirnar nokkuð jafnt niður á allri starfsemi bankans. Bankinn hefur barist í bökkum eins og fleiri breskir bankar og um miðjan ágúst tilkynnti hann tap í fyrsta sinn í 40 ára sögu sinni sem almenningshlutafélag.

Eftir 5,9 milljarða punda afskriftir varð tap af rekstri á fyrri helmingi ársins 802 milljónir sterlingspunda. Royal Bank of Scotland þurfti á ríkisaðstoð að halda líkt og fleiri breskir bankar. Um miðjan október tilkynntu þrír af stærstu bönkum Bretlands að þeir áformuðu að fá samtals um 37 milljarða sterlingspunda í aukið hlutafé frá breska ríkinu.

Breskir skattgreiðendur munu eftir ríkisaðstoðina eiga 60 prósent af Royal Bank of Scotland og 40 prósent í sameinuðum Lloyd's og HBOS. Ætlunin er að auka hlutafé Royal Bank of Scotland um 20 milljarða punda.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×