Skoðun

Ár og dagar íslenskrar tónlistar

Jakob Frímann Magnússon skrifar
Íslensk tónlist nýtur um þessar mundir meiri hylli hérlendis en áður hefur þekkst sé miðað við almenna útbreiðslu, flutning í útvarpi og sölu hljóm­diska. Um þessar mundir er hlutfall íslenskra hljómplatna allt að 90% miðað við sölu- og vinsældalista. Fyrir áratug var það hlutfall einungis um 30%.

Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að hljómplötumarkaður í heild sinni hefur dregist verulega saman um heim allan. Það má m.a. rekja til þeirrar tæknibyltingar sem netvæðingin er og leitt hefur til endurgjaldslauss niðurhals, bæði á tónlist og kvikmyndum. Um þessar mundir standa yfir samningaviðræður við net- og símafyrirtæki víða um lönd sem vonandi megna að snúa vörn greinarinnar í sókn.

Þó að íslenskir tónlistarmenn séu fæstir í álnum standa þeir óskaddaðir eftir 25 ár í útrás. Sumir fullyrða að tónlistin og menningin muni endurreisa og varðveita orðstír Íslendinga á alþjóðavettvangi.

Íslenskir tónlistarmenn þurfa engan kinnroða að bera af framlagi sínu til samfélagsins. Þeir barma sér sjaldan þó æði þröngt sé flestum sniðinn bæði heimavistar- og útherjastakkurinn.

Efnt verður til dagskrár í Þjóðleikhúskjallaranum kl. 12.12. þennan 12. dag 12. mánaðar ársins og verður sú dagskrá tileinkuð minningu Rúnars Júlíussonar sem verður jarðsunginn kl. 14.00 þennan dag frá Keflavíkurkirkju.

Þá verður Bjarkarlaufið afhent einstaklingi úr stétt fjölmiðlamanna fyrir auðsýnda ræktarsemi við íslenska tónlist. Bjarkarlaufsþegi síðasta árs var Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu. Kynningu á tilnefningum til ÍTV verður frestað fram yfir helgi af virðingu við hinn látna.

Að lokinni klukkustundar dagskrá í Þjóðleikhúskjallaranum gefst fólki kostur á að safnast saman í Fríkirkjunni í Reykjavík þar sem tónlist Rúnars mun hljóma uns útförin hefst kl. 14.00, en henni verður varpað á risaskjá í kirkjunni.

Höfundur er formaður FTT, Stefs og Samtóns.






Skoðun

Sjá meira


×