Viðskipti erlent

Þjóðarleiðtogar segjast ætla að vinna saman að lausn

MYND/AP

Þjóðarleiðtogar samþykktu á fundi í Washington í gær að vinna saman að lausn alheims fjármálakreppunar. Í lokayfirlýsingu segir að nauðsynlegar endurbætur verði gerðar á fjármálakerfi heimsins. Breytingar verði gerðar á lykilstofnunum á borð við Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og samkomulag verði klárað fyrir lok ársins sem muni liðka fyrir Dóha viðræðulotunni um fríverslunarsamning.

Gagnsæi verði aukið og fyrirtækjum á mörkuðum gert að upplýsa enn frekar um starfsemi sína og fjárhagsstöðu. Komið verði í veg fyrir að stjórnendur fjármálafyrirtækja taki of mikla áhættu í rekstri og ríkjum heims verði gert að gera lista yfir þau fyrirtæki sem gætu stefnt efnahagskerfi heimsins í voða með hruni sínu. Hverju ríki fyrir sig verði síðan gert að herða eftirlit með fjármálafyrirtækjum sínum og þyngja viðurlög við fjársvikum.

Fjármálaráðherrum þeirra nítján ríkja sem höfðu fulltrúa á fundinum og framkvæmdastjórum Evrópusambandsins var falið að gera tillögur fyrir næsta fund sem verður í apríl. Búist er við að hann verði haldinn í Lundúnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×