Viðskipti innlent

Deilt um umboð stjórnarformanns til tugmilljóna viðskipta

Deilt er um hvort Rúnar Sigurpálsson hafi haft umboð til að framkvæma tugmilljónaviðskipti fyrir hönd Estia.
Deilt er um hvort Rúnar Sigurpálsson hafi haft umboð til að framkvæma tugmilljónaviðskipti fyrir hönd Estia.

Ágreiningur er uppi um hvort Rúnar Sigurpálsson, fyrrverandi stjórnarformaður fjárfestingafélagsins Estia, hafi haft umboð til að framkvæma tugmilljóna viðskipti fyrir hönd félagsins í september á síðasta ári. Tapið af þeim viðskiptum nemur 40 milljónum.

Það er deilt um hvort Rúnar hafi haft umboð til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi og fleiri íslenskum félögum fyrir tugmilljónir á framvirkum samningum í september á síðasta ári. Þetta staðfestir Steinþór Valur Ólafsson, stjórnarmaður Estia, í samtali við Vísi. "Verið er að skoða hvort hann hafi haft þetta umboð og hvort eitthvað hafi klikkað hjá SPRON Verðbréfum sem sáu um viðskiptin," segir Steinþór Valur. Hann hefur sent inn fyrirspurn til SPRON Verðbréfa um málið og bíður svars.

Rúnar Sigurpálsson, sem er forstöðumaður á fjármálasviði Baugs, segir að hann hafi ekki aðhafst neitt rangt í þessu máli. "Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri vissu af þessu allan tímann. Þetta voru bara venjuleg viðskipti," segir Rúnar.

Arnar Már Snorrason, framkvæmdastjóri Estia, vildi ekki tjá sig um hvort hann hefði vitað af þessum viðskiptum Rúnars og vísaði á Steinþór. Það sama gerði Kristján Ásgeirsson stjórnarmaður þegar Vísir ræddi við hann.

Jón Hallur Pétursson, framkvæmdastjóri SPRON Verðbréfa, sagði í samtali við Vísi að það væru engar viðræður í gangi við Estia. "Við höfum átt góð samskipti við félagið í gegnum tíðina og vonum að þau haldi áfram," sagði Jón Hallur. Aðspurður hvort hann teldi að SPRON Verðbréf hefðu gert mistök í fyrrgreindu máli sagði hann svo ekki vera.

SPRON er stærsti hluthafi Estiu í gegnum eignarhaldsfélag sitt Steinsnes sem á 32% í félaginu. Aðrir stórir hluthafar eru til að mynda frændurnir Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson, oft kenndir við Samherja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×