Viðskipti innlent

Stefnir í 85 milljarða kr. greiðslu úr ríkissjóði til erlendra fjárfesta

Athygli vekur hve lítil eftirspurn var eftir ríkisbréfum í fyrsta útboði Seðlabankans á nýjum flokki þeirra eftir bankahrunið. Samkvæmt því stefnir í að ríkissjóður þurfi að greiða erlendum fjárfestum allt að tæplega 85 milljarða kr. þann 12. desember.

Útboðinu var ætlað að koma til móts við erlenda fjárfesta sem eiga um 100 milljarða í eldri flokki ríkisbréfa með gjalddaga í þessum mánuði. Hinsvegar var aðeins tekið tilboðum upp á 15,5 milljarða kr. í útboðinu nú.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að innlendur fjármálamarkaður tekur nú jafnt og þétt á sig mynd að nýju eftir hrunið í októberbyrjun. Skref í því ferli var stigið í gær þegar Seðlabankinn efndi til fyrsta útboðs ríkisbréfa frá því bankakreppan skall á. Bréf í flokknum RIKB 10 0317 voru boðin út með hollensku sölufyrirkomulagi, en í því felst að lægsta verð sem samþykkt er ræður verði á öllum seldum bréfum. Alls bárust tilboð að fjárhæð u.þ.b. 26,5 milljarða kr. en tilboðum upp á 15,5 milljarðar kr. var tekið og var um 16,75% ávöxtunarkröfu að ræða.

Athygli vekur að eftirspurn í þessu útboði skyldi ekki vera meiri en að framan greinir. Útboðinu var ætlað að koma til móts við fjárfesta sem eiga ríkisbréf í flokknum RIKB 08 1212, en sá flokkur er á gjalddaga 12. desember.

Flokkurinn er nú u.þ.b. 100 milljarðar kr. að stærð og að stærstum hluta í eigu erlendra fjárfesta. Ljóst er að áhugi þeirra á kaupum í útboði gærdagsins var takmarkaður, sem hlýtur að vera ríkisstjórn og Seðlabanka nokkurt áhyggjuefni.

Greining tekur fram að rétt sé að hafa í huga að í næstu viku verður útboð á nýjum 2ja ára ríkisbréfaflokki sem einnig nýtist þeim sem eiga bréf á gjalddaga í desember til framlengingar á stöðum sínum. Verður forvitnilegt að fylgjast með eftirspurn í því útboði.

Ef hún verður takmörkuð líkt og í gær er ríkissjóði nokkur vandi á höndum, því hann þarf að standa skil á mismun gjalddagans 12. desember og sölu á nýjum ríkisbréfum í útboðum gærdags og næstu viku.

Miðað við niðurstöðu gærdagsins vantar enn mikið upp á að það bil sé brúað. Ríkissjóður á raunar talsvert digra innistæðu hjá Seðlabanka eftir undangenga ríkisbréfaútgáfu, en komi ofangreind staða upp getur það höggvið töluvert skarð í þann sjóð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×