Erlent

Jórdanir senda Palestínumönnum vopn

Óli Tynes skrifar

Ísraelar samþykktu fyrir nokkru að Jórdanir sendu um eittþúsund nýja hríðskotariffla til öryggissveita Mahmouds Abbas, forseta Palestínu á Vesturbakkanum. Í sendingunni var einnig mikið magn af skotfærum.

Samþykki Ísraela er liður í því að styrkja stöðu forsetans í baráttu hans við hryðjuverkasamtökin Hamas.

Hersveitir Hamas hröktu Abbas og liðsmenn hans á brott þegar þær hertóku Gaza ströndina á síðasta ári.

Fyrr á þessu ári hófu Jórdanir að þjálfa öryggissveitir Abbas og bera Bandaríkjamenn kostnaðinn af því.

Þeir veigra sér hinsvegar við því að greiða fyrir skotvopn sem notuð eru gegn palestínumönnum, jafnvel þótt það séu aðrir palestínumenn sem noti þau skotvopn.

Það kann að hljóma dálítið skondið þar sem Bandaríkjamenn eru ósínkir á vopn til Ísraela. En svona er pólitíkin í Miðausturlöndum.

Jórdanir voru því fengnir til þess að útvega rifflana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×