Erlent

Cheney í Úkraínu

Dick Cheney varaforseti Bandaríkjanna ræðir í dag við leiðtoga Úkraínu, eftir ferð sína til Georgíu. Cheney hefur hvatt forystumenn beggja ríkja til að leggja áherslu á aðild að NATO, en stjórnarkreppa sem blossaði upp í Úkraínu fyrr í vikunni kann að flækja fyrir því.

Dick Cheney kemur til Úkraínu eftir að ræða við ráðamenn í Aserbædjan og Georgíu, tveimur öðrum fyrrum Sovétlýðveldum sem Rússar vilja halda innan síns áhrifasvæðis. Rússar hafa að sama skapi ekki hikað við að hafa sterkar skoðanir á málefnum Úkraínu, fimmtíu milljóna manna ríkis sem var næststærsta þjóðin í Sovétríkjunum sálugu. En munurinn er þó sá að í Úkraínu skiptist almenningur alveg í tvennt þegar umræðan um aðild að NATO kemur upp. Mikill fjöldi rússneskumælandi íbúa landsins er alfarið á móti NATO-aðild.

Cheney ræddi í morgun við Tymoshenko forsætisráðherra, sem er komin í andstöðu við fyrrum bandamann sinn, Jústsénkó forseta. Jústsénko er mikill áhugamaður um NATO aðild, en hann sakarTymoshenko um að moldvörpustarfsemi gegn sér. Hún tók höndum saman við stjórnarandstöðuna - sem styður Rússa að málum - til þess að minnka vald forseta. Stjórnarkreppan sem þá blossaði upp flækir verulega viðleitni Cheneys til að stappa stálinu í fyrrum Sovétlýðveldi um að sameinast gegn ásælni Rússa. Hann ræðir við Jústsénko forseta síðar í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×