Innlent

Ráðuneytisstjóri til Írans á vegum stjórnvalda

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, spurðist fyrir um ferðir ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins til Írans.
Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, spurðist fyrir um ferðir ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins til Írans. MYND/GVA

Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins fór til Írans fyrr á árinu á vegum íslenskra stjórnvalda til þess að greiða leið íslenskra fyrirtækja og vinna að hagsmunum Íslands í tengslum við framboð til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í morgun innti Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur ráðherra eftir því á hvers vegum ráðuneytisstjórinn hefði verið í för sinni og vísaði meðal annars til ástands mannréttindamála í Íran.

Ingibjörg Sólrún sagði ráðuneytisstjórann hafa farið á vegum utanríkisráðuneytisins meðal annars til þess að liðka fyrir íslenskum fyrirtækjum í landinu og til að ræða við íranska stjórnmálamenn um framboð Íslendinga til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Slíkt væri ævinlega gert þegar kostur væri á.

Benti hún á að samskipti umheimsins við Íran hefðu ekki verið rofin og stjórnmálasambandi hefði ekki verið slitið við landi. Engin ástæða væri til þess að leggja stein í götu fyrirtækja sem væru í viðskiptum í landinu og vísaði ráðherra þar til lyfjafyrirtækisins Actavis.

Ekki allt lýðræðisþjóðir sem styðja Ísland

Jón Magnússon spurði í framhaldinu hvort þarna væri um stefnubreytingu að ræða hjá íslenskum stjórnvöldum þegar áhersla væri lögð á að ræða við Írana um framboð til Öryggisráðsins. Benti hann á að klerkastjórn væri við völd í landinu og spurði hann hvort markvisst væri verið að leita eftir stuðningi við framboðið óháð því hvar þjóðirnar stæðu. Þá spurði hann hvort verið væri að gera lítið úr þeim mannréttindum sem Íslendingar hefðu lagt áherslu á.

Utanríkisráðherra sagði það eiga við um Íslendinga eins og aðrara þjóðir að þeir leituðu eftir stuðningi hjá þeim þjóðum sem ættu aðild að Sameinuðu þjóðunum. Ísland þyrfti atkvæði tveggja þriðju þjóða hjá samtökunum til að ná kjöri í Öryggisráðið og það segði sig sjálft að fjöldi þjóða sem styddu Ísland teldist ekki lýðræðisþjóðir í skilningi vestrænna ríkja. Íslendingar sæktust hins vegar eftir stuðningi á sínum eigin forsendum og þeir kynntu fyrir hvað þeir stæðu og myndu standa við það kæmust þeir í Öryggisráðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×