Viðskipti innlent

Lægra verð fæst fyrir listaverkin

Listaverk fóru mörg hver á aðeins helmingi þess verðs sem sett var á þau á uppboði Gallerí Foldar í gærkvöldi.

Um var að ræða þriðja uppboð Gallerí Foldar á árinu og er óhætt að segja það allra slakasta enda fremur illa mætt. Úrvalið var þó ágætt að vanda og mátti þar sjá verk eftir til að mynda Louisu Matthíasdóttur, Nínu Tryggvadóttur, Þorvald Skúlason, Karl Kvaran, Óla G. Jóhannsson og Kristján Davíðsson.

Áhuginn var þó ekki mikill og fór dýrasta myndin á rétt yfir 2 milljónir króna.„Núna hefur orðið einhver smálækkun á þessu og það er kannski bara eðlilegt miðað við það ástand sem er í þjóðfélaginu í dag," segirTryggvi Páll Friðriksson, eigandi Gallerí Foldar. Hann bætir við að um hundrað myndir hafi selst á uppboðinu og menn séu ekki óánægðir með það.

Tryggvi segir líkt og fjármálaspekúlantar segja um bréf á markaði að nú sé réttur tími til að verða sér út um falleg verk eftir vel þekkta listamenn á góðu verði. Og þó sala hafi minnkað hefur erlendum kaupendum fjölgað enda krónan afar veik. Og yfir höfuð er Tryggvi sæll. „Við seljum bara mikið af góðri, íslenskri list, nýrri og gamalli," segir hann.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×