Skoðun

Flugvöllurinn fari með hraði

Örn Sigurðsson skrifar
Hjörleifur Sveinbjörnsson eiginmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar og einn helsti pólitíski ráðgjafi hennar skrifar undarlega grein í Fréttablaðið 2. júní sl. um flugvallarmálið.

Þar leggur hann til minnkaðan og tilfluttan Reykjavíkurflugvöll innan Vatnsmýrarsvæðisins til að leysa þá stórstyrjöld, sem hann telur geysa um flugvallarmálið. En það sem Hjörleifur Sveinbjörnsson nefnir ekki en hlýtur þó að vita um er að gerð var skýrsla um þetta flugvallarmál á vegum fyrrverandi samgönguráðherra og birtist hún vorið 2007. Í þessari faglegu skýrslu er komist að því að það kostar þjóðarbúið a.m.k. 3,5 milljarða kr. á ári að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri og tæknilega og fjárhagslega boðlegir kostir bjóðast í staðinn á Hólmsheiði og í Keflavík.

Vegna andstöðu landsbyggðarfólks við Keflavík blasir Hólmsheiði við sem pólitískt ásættanleg staðsetning. En hvað skeður þá? Samgönguráðherra Samfylkingarinnar dregur lappirnar við að ljúka veðurathugunum á Hólmsheiði með því að vilja ekki láta fara fram tölvuhermun á veðrinu þar, sem kostar um 6 milljónir kr og tekur um 6 vikur, til þess að geta borið því formsatriði við að ekki sé unnt að ákveða hvort mögulegt sé að flytja Reykjavíkurflugvöll upp á Hólmsheiði vegna þess að veðurathugunum þar sé ekki lokið!

Þetta er formsatriði vegna þess að samkvæmt núverandi þekkingu á veðri er lendandi á Hólmsheiði í a.m.k. 96% tilvika. Allar frekari veðurathuganir þarna eru í raun einungis til að finna út hvar á bilinu 96-98% af árinu sé lendandi á þessum stað og 95% nýting telst viðunandi lágmark.

Ég er hér með tillögu að aðgerðaráætlun fyrir Hjörleif Sveinbjörnsson, sem greinilega vill láta til sín taka á þessu sviði: Undirritaður leggur til að hann taki málið upp við formanninn sinn og biðji hann um að hnippa í Kristján L. Möller samgönguráðherra í því skyni að hann láti fara fram tölvuhermun á veðrinu á Hólmsheiði og liggur þá fyrir innan nokkurra mánuða að veðrið þar er í góðu lagi”.

Þegar Hjörleifur Sveinbjörnsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Kristján L. Möller hafa afrekað þetta er ekkert því til fyrirstöðu að flytja Reykjavíkuflugvöll upp á Hólmsheiði og uppfylla þannig niðurstöðu almennra kosninga frá árinu 2001, sem formaður Samfylkingarinnar hefur hingað til talið pólitískt og siðferilega bindandi niðurstöðu.

Tal Hjörleifs Sveinbjörnssonar um flugvöll í Torontó vekur furðu. Toronto City Centre Airport liggur á eyjum og uppfyllingum í Ontariovatni, nokkur hundruð metra frá landi, beint undan miðborginni. Hann er í eigu alríkisstjórnarinnar og hafnaryfirvalda í Toronto, sem vilja stækka hann og margfalda flugumferð en mikil andstaða er meðal borgarbúa, sem vilja að flugvöllurinn verði lagður niður.

Hjörleifur ætti að þekkja íslenskar aðstæður ögn betur. Reykjavíkurflugvöllur var byggður í seinna stríði í óþökk Reykvíkinga á kjörlendinu, sem þeir fengu 1. janúar 1932 til að stækka bæinn. Þar hefur ríkisvaldið viðhaldið honum æ síðan gegn vilja og hagsmunum borgarbúa með hóflausri misbeitingu illa fengins valds, með misvægi atkvæðanna.

Höfundur er arkitekt og stjórnarmaður í Samtökum um betri byggð.




Skoðun

Sjá meira


×