Viðskipti innlent

Mögulegt að verðbólgumarkmið Seðlabankans heyri sögunni til

Seðlabankinn hefur vikið verðbólgumarkmiði sínu til hliðar til bráðabirgða og mun einbeita sér að því að skapa stöðugleika í gengi krónu næsta kastið. Mögulegt er að tímar peningamálastefnu sem byggir á flotkrónu og verðbólgumarkmiði séu nú að baki fyrir fullt og allt.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að af gengisspá bankans má ráða að hann miði við að gengi krónu gagnvart evru verði komið í námunda við 130 þegar komið er fram á næsta ár og verði á þeim slóðum næstu misserin.

Segir Seðlabankinn að í ljósi þeirra aðstæðna sem nú ríkja í hérlendu efnahagslífi hafi bankinn fallið frá því að birta stýrivaxtaferil sem sérfræðingar hans telja að stuðli að framgangi verðbólgumarkmiðs á næstu misserum, og mun stýrivöxtum, sem og öðrum stjórntækjum bankans, fyrst og fremst verða beitt í því skyni að styðja við krónuna eftir megni.

„Þó ber ekki að líta á hina nýju stefnu sem fastgengi, heldur má gera ráð fyrir að Seðlabankinn muni miða stefnu sína við það hvernig mál þróast á næstunni og aðlaga hana að þróun mála hérlendis sem erlendis," segir í Morgunkorninu.

Stýrivextir Seðlabanka eru óbreyttir í 18% eftir vaxtaákvörðun morgunsins og virðist nú ríkja eins konar millibilsástand í peningamálum uns stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) hefur lagt blessun sína yfir aðgerðaáætlun ríkisstjórnar og sjóðsins.

Þessa skoðun byggir greiningin á því að ekki var haldinn fundur fyrir fjölmiðla í því skyni að kynna vaxtaákvörðun og nýjar spár bankans heldur kom fram í fréttatilkynningu bankans að stefnan í peningamálum verði kynnt í kjölfar birtingar á aðgerðaráætlun ríkisstjórnar og IMF.

Gereiningin telur líklegt að nýtt fyrirkomulag peningamála fyrir næstu mánuði verði kynnt eftir helgi, jafnvel strax á mánudag. Athygli vekur að bankinn segir að hið nýja fyrirkomulag muni gilda til bráðabirgða meðan unnið er að því að gera annað tveggja:

- Leitast við að snúa á ný til fyrra fyrirkomulags með fljótandi gengi og verðbólgumarkmið

- Finna aðra langtímalausn á gengis- og peningamálum þjóðarinnar

Erfitt er að túlka seinni leiðina öðruvísi en svo að þar sé átt við þátttöku í ERM II myntsamstarfinu í kjölfar inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru í kjölfarið, enda einhliða upptaka á öðrum gjaldmiðli mun síðri kostur og fastgengisstefna með krónu nánast ómöguleg. Hér er um mikil tíðindi að ræða, en Seðlabankinn hefur verið á verðbólgumarkmiði frá því lögum um bankann var breytt snemma árs 2001.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×