Viðskipti innlent

Óttast holskeflu fyrirtækja á vanskilaskrá

Finnur Oddsson, sem er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, hvetur stjórnvöld til að bæta upplýsingagjöf sína.
Finnur Oddsson, sem er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, hvetur stjórnvöld til að bæta upplýsingagjöf sína. Fréttablaðið/GVA
„Mestar áhyggjur höfum við nú af hastarlegri holskeflu vandræða sem fyrirséð er hjá fyrirtækjum landsins,“ segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Að óbreyttu segir hann fyrirséð að um og yfir þúsund íslensk félög bætist á vanskilaskrá.

„Staðan sem upp er komin er verulega vond og fyrirtæki lenda æ fleiri í vanskilum,“ segir hann, en þar vega þungt auknar álögur á innflutningsfyrirtæki og önnur sem þurft hafa svokallaðar greiðslufreststryggingar. Fyrirtæki sem þær annast hafa fellt niður tryggingar vegna örðugleika í gjaldeyrismiðlun hér og þar með hafa fyrirtæki misst greiðslufrest og bæði þurft að borga hann upp og staðgreiða nýjar pantanir.

„Þetta setur gríðarlegt álag á lausafjárstöðuna hjá þessum fyritækjum,“ segir Finnur. Komist greiðslumiðlun í lag, áréttar Finnur að fyrirtæki landsins þurfi einnig að standa betur að upplýsingagjöf, svo sem skilum ársreikninga. „Greiðslutryggingafyrirtækin koma ekki inn aftur án þess að fyrir liggi upplýsingar um efnahagsreikning fyrirtækja og greiðslugetu.“

Þá segir Finnur áhyggjuefni að um miðjan þennan mánuð sé skiladagur á innskatti fyrirtækja.

„Þar gætu komið upp vandamál vegna þess að fyrirtækin eru mörg hver búin að éta upp allt laust fé. Þarna þarf hið opinbera að sýna forsjálni og aðstoða við að lina það högg sem komið hefur á atvinnulífið, jafnvel með því að deila niður greiðslum og sjá til þess að ekki komi strax full viðurlög, svo sem fullir dráttarvextir.“

Finnur segist vita til þess að þessi mál séu þegar í einhverri skoðun í fjármálaráðuneytinu.

„En jafnljóst er að hér mun ekkert leysast fyrr en gjaldeyrismálin eru komin í lag, þá léttir ákveðinni óvissu,“ segir Finnur og hvetur til þess að stjórnvöld stórbæti upplýsingagjöf sína.

„Segja má að þögnin vegna mála sem tengd eru Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafi verið ærandi og upplýsingaþurrð ríkjandi. Sama gildir um Icesave-deiluna,“ segir hann og telur að athugandi væri fyrir stjórnvöld að halda „spilunum ekki alveg svona nærri sér“ í þessum málum.

„Ég held það myndi hjálpa ef fólk fengi betur áttað sig á hverju steytir, svo sem í Icesave-deilunni, því það er líka ljóst að það er ekki valkostur að enda þessa vegferð í mikilli ósátt við alþjóðasamfélagið,“ segir Finnur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×