Viðskipti innlent

Hlutabréf í Eimskip lækka um nærri 50 prósent á þremur dögum

Gengi hlutabréfa í Eimskipafélagi Íslands héldu áfram að falla í morgun. Hlutabréfin hafa lækkað um tæp 50 prósent frá því á föstudag. Staðan er alvarleg segir fyrrverandi stjórnarformaður.

Hlutabréf í Eimskipafélaginu hafa verið í frjálsu falli frá því á föstudaginn. Þá lækkuðu hlutabréfin um 21 prósent og aftur um 21 prósent í gær.

Tíu viðskipti voru með hlutabréf í félaginu í morgun og var gengið búið að lækka um tæp þrjú prósent nú rétt fyrir hádegi. Frá því markaðir opnuðu á föstudag hefur gengi bréfa í félaginu lækkað um 45 prósent. Frá áramótum hafa hlutabréfin því lækkað um 85 prósent. Hluturinn stendur nú í sex krónum en fyrir ári var hann tæpar 40 krónur.

Markaðsvirði félagsins er nú um ellefu milljarðar króna en félagið skuldar rúmlega 150 milljarða.

Magnús Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eimskipafélagsins, sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að staðan væri alvarleg en bendir enn fremur á að nú dynji áföll yfir á öllum sviðum í viðskiptalífi heimsins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×