Skoðun

Gagnslaus peningahít

Steinunn Rögnvaldsdóttir skrifar

Mikil aukning hefur verið í framlögum ríkisvaldsins til svokallaðra „varnarmála" síðustu ár. Framlög hafa farið úr 350 milljónum árið 2007 í rúmar 1.400 milljónir á fjárlögum fyrir næsta ár. Þrátt fyrir þessi miklu fjárútlát standa Íslendingar varnarlausir gagnvart hörmungum efnahagskreppunnar.

Gæluverkefni formanns Samfylkingarinnar, Varnarmálastofnun, er ráðalaus gagnvart því sem nú ógnar Íslendingum mest, þ.e.a.s. atvinnuleysi, fátækt, auknu heimilisofbeldi í kjölfar efnahagsþrenginga og fleiru. Ljóst er að Varnarmálastofnun getur ekki tryggt öryggi almennings og er einfaldlega gagnslaus peningahít.

Þær fréttir úr utanríkisráðuneytinu að nú sé leitað allra leiða til að draga úr kostnaði voru því ánægjulegar. Nærtækasta leiðin er líklega að leita ráða hjá okkur í Ungum Vinstri grænum, enda höfum við ítrekað ályktað gegn dýrri hernaðarvæðingu í utanríkisráðuneytinu.

Í sérstakri sparnaðaráætlun UVG, sem hreyfingin samþykkti nýlega, eru tillögur um sparnað í utanríkisráðuneytinu upp á 3,3 milljarða á næsta ári. Þessi sparnaður myndi nást með því að leggja niður Varnarmálastofnun, segja okkur úr NATO, hætta við loftrýmiseftirlit og heræfingar erlendra herja, hagræða í rekstri sendiráða og draga úr alls konar bruðli, svo sem einkaþotuferðum á herráðsstefnur eins og þá sem farin var til Búkarest fyrr á þessu ári.

Við verðum að leggja áherslu á samfélagslegt öryggi í stað þess að einblína á hernaðarlegt öryggi. Okkur stafar ekki hætta af erlendum fólum og hryðjuverkamönnum, heldur af innlendum skemmdarvörgum sem spila rússneska rúllettu með peninga skattborgara, og duglausum ráðamönnum sem skjóta sér undan ábyrgð þegar allt er komið í strand. Við verjum okkur best með því að skipta út fólkinu sem klúðraði málunum, setja skýrar leikreglur fyrir þá sem höndla með almannafé og það sem mikilvægast er: styðja við velferðarkerfið, sameiginlegt öryggisnet þjóðarinnar.

Höfundur er formaður Ungra vinstri grænna.








Skoðun

Sjá meira


×