Erlent

Tvö hundruð þúsund heimilislaus á Kúbu eftir tvo fellibylji

Götur á Kúbu eru sums staðar umflotnar vatni eftir yfirreið Ikes í síðustu viku en slíkt er ekki öllum á móti skapi, til að mynda ekki þessum dreng.
Götur á Kúbu eru sums staðar umflotnar vatni eftir yfirreið Ikes í síðustu viku en slíkt er ekki öllum á móti skapi, til að mynda ekki þessum dreng. MYND/AP

Tvö hundruð þúsund manns hið minnsta eru heimilislausir á Kúbu eftir yfirreið fellibyljanna Gústafs og Ikes á síðustu vikum. Stjórnvöld þar í landi segja tjónið í byljunum tveimur það mesta í sögu landsins.

Bráðabirgðaskýrsla stjórnvalda um tjónið var kynnt í kúbversku sjónvarpi í gærkvöld. Þar kom fram að tjónið nemur yfir 800 milljörðum króna og hefur áhrif á 450 þúsund manns. Sem fyrr segir hafa 200 þúsund misst heimili sín og þá eyðilögðust um 340 þúsund hektarar af sykurreyr í ofsaveðrunum tveimur.

Þykir ljóst að vegna tjónsins geti það reynst nýjum forseta, Raul Castro, erfitt að bæta lífsskilyrðin á eyjunni á næstunni. Ýmsir innviðir samfélagsins urðu illa úti í byljunum, þar á meðal vegir, raflínur, skólar og spítalar, og búist er við að uppbyggingarstarf taki mörg ár.

Bandaríkjamenn hafa boðið Kúverjum aðstoð sína en því hafa Kúbverjar hafnað og segjast ekki munu þiggja gjafir frá nágrönnunum á meðan þeir beiti þá viðskiptabanni. Stjórnvöld í Kúbu höfðu farið fram á það að viðskiptabanni Bandaríkjanna yrði aflétt í hálft ár svo Kúbverjar gætu keypt ýmsan varning til uppbyggingar en á það féllust Bandaríkjamenn ekki.

Kúbverjar hafa þó ákveðið að þiggja aðstoð frá Rússum, Spánverjum og Brasilíumönnum og hafa flugvélar frá þessum löndum lent á eynni með hjálpargögn. Þá er von á að Hugo Chavez, forseti Venesúela, komi skoðanabræðrum sínum á Kúbu til aðstoðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×