Viðskipti innlent

Skuldabréf Landsbankans metin á 1,25% af nafnverði

Uppboði með skuldatryggingar á skuldabréfum Landsbankans er nú lokið. Niðurstaðan varð sú að seljendu trygginganna verða að borga 98,75% af nafnverði bréfanna til þeirra sem tryggðu bréfin. Voru bréfin því metin á 1,25% af nafnverði.

Þetta þýðir einfaldlega að þeir erlendu aðilar sem gera munu kröfur í þrotabú Landsbankans þegar það verður loksins tekið til skipta reikna með að fá 1,25% af kröfum sínum greiddar

Um er að ræða óvenjulágt mat á bréfunum og raunar segir á Reuters að hið lága mat hafi komið á óvart. Enda gengu bréfin kaupum og sölum á frá 2-3 aurum fyrir krónuna og allt upp í 6 aura í gærdag.

Uppboðið fór fram hjá Creditex og Markit en það var haldið á vegum International Swaps and Derivatives Association og var hið fyrsta sinnar tegundar í Evrópu.

Til samanburðar má geta þess að skuldatryggingar á skuldabréf Lehman Brothers fóru á rúmlega 8 cent fyrir dollarann og hjá Washington Mutual var hlutfallið 57 cent fyrir dollarann.

Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra aðila sem bæði áttu og seldu skuldatryggingar á bréf Landsbankans og það dregið frá heildarupphæðinni sem tyggingarnar náðu yfir er talið að tapið seljenda þessara trygginga nemi 1,8 milljörðum dollara eða rúmum 200 milljörðum kr..

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×