Innlent

Minna rusl í kreppunni

Ef marka má nýjar tölur hjá Sorphiðirðu Reykjavíkur var neysla borgarbúa töluvert minni í nóvember en á sama tíma í fyrra. Mælingar leiða í ljós að sorpmagn heimilanna var 18 prósentum minna. Í tilkynningu frá borginni er þó minnt á að vinnan þyngist hjá sorphirðufólki í desember. „Mikilvægt er að flokka sorp til endurvinnslu um jólahátíðirnar því mikið leggst til," segir Sigríður Ólafsdóttir rekstrarstjóri Sorphirðu Reykjavíkur.

Sorpmagn er ævinlega mikið í desember því margt berst inn um lúguna. „Við munum vinna fram að hádegi á aðfangadag. Og byrjum aftur annan í jólum og stefnum að því að allir fái losun á sorpi á milli hátíða - aðeins veður og færð geta hindrað það," segir Sigríður. Þá bendir hún á að óhagstætt sé að fylla tunnurnar með jólapappír og pappakössum. „Þetta rusl lyktar ekki og afar auðvelt er að fara með það á endurvinnslustöðvar."

Ferð í Sorpu eða í grenndargáma kemur í veg fyrir að sorpílát yfirfyllist eins og stundum vill við henda um jólin. Sigríður biður fólk einnig um að huga að því að moka þurfi snjó frá sorpgeymslum og eyða hálku sem liggur að sorpílátum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×