Viðskipti erlent

IMF frestar Íslandsláni um óákveðinn tíma án útskýringar

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur frestað afgreiðslu á 2,1 milljarða dollara láni til Íslands um óákveðinn tíma en útskýrir ekki afhverju. Þetta kemur fram í The Financial Times (FT) í dag.

FT hefur eftir Paul Rawkins eins af forstjórum Fitch Ratings að Ísland hangi nú í lausu lofti. "Landið þarf augljóslega á nýju regluverki um peninga- og gjaldeyrismál að halda en það þarf IMF til þessa," segir Rawkins.

Fram kemur í frétt FT að staðfesting IMF á láninu til Íslands sé bráðnauðsynleg þar sem að Norðurlöndin hafa sagt að þau komi ekki Íslandi til aðstoðar með lán fyrr en IMF hafi afgreitt sitt lán.

Frestun IMF kemur á sama tíma og ljóst er að íslenskum stjórnvöldum hefur ekki tekist að fá vilyrði fyrir þeirri upphæð sem þau telja sig þurfa. "Okkur vantar enn 500 milljón dollara," er haft eftir fulltrúa íslensku stjórnarinnar í FT.

Sem fyrr segir fást engar skýringar á töf IMF í málinu. FT nefnir þær hugleiðingar íslenskra ráðamanna að bæði Bretar og Hollendingar séu andsnúnir láninu fyrr en gengið hafi verið frá Icesave-klúðrinu. Hinsvegar bendir FT á að Gordon Brown forsætisráðherra Breta hafi sagt í gær að hann væri meðmæltur láni IMF til Íslands.

Wouter Bos fjármálaráðherra Hollands segir aftur á móti að samband sé á milli tregðu IMF að staðfesta lánið og deilunnar um Icesave. "Sem betur fer eigum við bandamenn á borð við Þjóðverja og Breta sem eiga við sama vandamál að etja gagnvart Íslandi," sagði Bos í viðtali í hollenska sjónvarpinu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×