Innlent

70 prósenta samdráttur í barnageðlækningum

Sjötíu prósenta samdráttur verður á þjónustu í barnageðlækningum við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eftir uppsögn verksamnings, að mati barnageðlæknis við sjúkrahúsið. Hann segir væntanlega hægt að verja ákvörðunina þar sem menn með viti séu sagðir hafa tekið hana. Það ætli hann hins vegar ekki að gera.

Tveggja og hálfs árs gömlum langtímasamningi um göngudeildarþjónustu barnageðlæknis hefur verið sagt upp. Páll Tryggvason, barnageðlæknir við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, hefur sinnt þessari þjónustu. Hann gegni þó enn sjötíu og fimm prósent stöðu við sjúkrahúsið og geti fært þjónustuna þar undir. Hann sinni auk þess áfram bráðatilvikum, ráðgjöf við deildir spítalans, samskiptum við skóla, barnarverndaryfirvöld og félagsmálayfirvöld.

Páll segist hafa reiknað það út að þjónustan dragist saman um sjötíu prósent. „Það verður verulegur samdráttur," segir Páll.

„Hann verður tilfinnanlegur strax á fyrstu vikum."

Páll segist nú í fyrsta sinn standa frami fyrir því að setja fólk á biðlista. Hann segir ef til vill hægt að verja þessa ákvörðun.

"Því það eru menn sem eru sagðir með fullu viti sem hafa tekið þessa ákvörðun standandi í tvær fætur og hugsa með höfðinu, vonandi, en ég myndi ekki vilja verja þessa ákvörðun, og ætla ekki að gera það," segir Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×