Viðskipti erlent

Olíuverðhækkanir gætu drepið norska útgerð

Talsmaður samtaka norskra útgerðarmanna óttast að þróun olíuverðs muni leiða til þess að fiskveiðar verði svo óhagkvæmar að ekki verði réttlætanlegt að stunda þær. Intraseafood.com greinir frá þessu.

Fjallað er um málið í Fiskeribladet Fiskaren og þar kemur fram að olíuverðið sé nú 133 dollarar fyrir tonnið og haldi verðið áfram að þróast með sama hætti á næstu misserum þá verði ekki nema tvö til þrjú ár þar til að olíuverðið verði 200 dollarar fyrir tonnið og það muni leiða til þess að mjög margir muni hætta útgerð fiskiskipa.

Þetta kemur fram í samtali við Jan Ivar Maråk hjá samtökum norskra útgerðarmanna en hann hvetur stjórnvöld til þess að bregðast strax við vandanum og gera sitt til þess að létta útgerðarmönnum róðurinn.

Hann bendir á að nauðsynlegt sé að rýmka heimildir til að hægt sé að sameina fleiri kvóta á skip til að gera útgerð þeirra hagkvæmari. Ef skipin þurfi að liggja bundin við bryggju langtímum saman þá muni skipverjar neyðast til að finna sér aðra vinnu og erfiðlega muni ganga að manna skipin.

Maråk segir einnig að hin mikla hækkun olíuverðsins geti leitt til þess að endurskoða verði veiðiaðferðir. Í dag séu gerðar ýmsar kröfur um umhverfisvænar veiðar sem menn telji sjálfsagðar. Ekki sé víst að svo verði þegar olíuverðið verður orðið 200 dollarar fyrir tonnið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×