Viðskipti erlent

Sterling í loftið á ný í næstu viku

Tvö verkalýðsfélög í Danmörku hafa náð samkomulagi við þrotabú Sterling flugfélagsins og munu flugvélar Sterling fara í loftið á ný í næstu viku.

Samkvæmt frétt um málið í Berlingske Tidende munu 110 flugmenn Sterling hafa gefið eftir í kröfum sínum og taka á sig 10% launalækkun svo samkomulagið gæti tekist.

Samningafundur stóð í alla nótt og nú í morgun lá samkomulagið loksins fyrir. Lars Helmö formaður flugmannanna innan Dansk Funktionærforbund segir að þeir reikni með að nokkrar af flugvélum Sterling fari strax í loftið í næstu viku. "Við erum bjartsýnir og teljum okkur hafa bjargað 430 störfum hjá Sterling," segir Helmö. "Við bíðum aðeins eftir að hinn nýi eigendinn, sem við vitum ekki hver er, komi sínum málum á hreint."

Í gærkvöldi lá fyrir samkomulag við verkalýðsfélagið HK/Privat Luftfart en það hefur flugliða Sterling innan sinna raða.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×