Erlent

Deilan um yfirráðasvæði á Norðurskautinu harðnar

Stephen Harper.
Stephen Harper. MYND/AP

Allt stefnir í það að deilan um hverjir eigi hvaða landsvæði á Norðurskautinu gæti orðið einn helsti skotspónn framtíðarinnar. Kanada, Danmörk (Grænland), Bandaríkin, Noregur og Rússland leggja nú æ ríkari áherslu á að tryggja yfirráð sín á þessu svæði enda talið að mikið magn náttúruauðlinda á borð við olíu og gas megi finna í jarðlögunum á hafsbotninum á Norðurskautinu.

Forsætisráðherra Kanada, Stephen Harper, sendi hinum löndunum skýr skilboð í dag á ferð sinni um svæðið. Sagði hann að öll skip sem í framtíðinni ætla sér að sigla sjóleiðina norður fyrir Kanada verði að skrá sig hjá kanadísku strandgæslunni.

Með sífellt meiri bráðnum íss á svæðinu er líklegt að umferðin milli Atlants- og Kyrrahafsins, norður fyrir Kanada og auðvitað fleiri lönd, komi til með að aukast til muna. Ummæli Harpers verða því væntanlega til þess að styggja hin nágrannalöndin sem telja sig eiga alveg jafn mikinn rétt á landsvæðinu, og þess vegna að sigla um svæðið, og Kanadamenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×