Viðskipti erlent

Kynlíf, dóp og gjafir í rannsókn á olíufélögum

Opinberir starfsmenn innanríkisráðuneytisins í Bandaríkjunum þáðu kynlíf, dóp og gjafir úr hendi olíufélaga þar í landi. Þetta er niðurstaða umfangsmikillar rannsóknar sem ríkisendurskoðun landsins gerði nýlega.

Meðal þess sem kemur fram í rannsókninni er að nokkrir starfsmenn ráðuneytisins þáðu marijuana og kókaín frá fulltrúum olíufélaga. Og í tveimur tilvikum þáðu þeir kynlíf. Auk þess er fjöldi tilvika um gjafir sem starfsmennirnir fengu frá olíufélögunum.

Á meðan á þessum stóð fjölluðu viðkomandi starfsmenn um samskipti olíufélaganna við hið opinbera. Er þar einkum um að ræða skatta og gjöld sem olúfélögin greiddu fyrir leyfi til olíuvinnslu á landi í eigu bandaríska ríkisins.

Tvö olíufélög eru nefnd á nafn í fyrrgreindri rannsókn, það er Shell og Chevron. Talsmenn þeirra vildu ekki tjá sig við CNN um málið í dag. Sögðu að þeir ættu eftir að kynna sér niðurstöður rannsóknarinnar.

Demókratar í báðum deildum þingsins í Bandaríkjunum hafa notað rannsókn þessa til að gagnrýna stjórn Bush forseta harðlega. Louise Slaughter þingmaður frá New York segir þannig að Bush-stjórnin hafi sett upp skilti við Hvíta húsið með áletruninni "Bandaríkin til Sölu" frá fyrsta degi og ætíð dregið taum olíufélaganna í vafamálum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×