Viðskipti innlent

Glitnir hafði milligöngu um lánafyrirgreiðslu fyrir Nevada Geothermal Power Inc

Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Glitnis.
Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Glitnis.

Glitnir hefur, í samstarfi við Morgan Stanley & Company Inc., haft milligöngu um 180 milljón bandaríkjadala lánafyrirgreiðslu fyrir Nevada Geothermal Power Inc. Lánafyrirgreiðslan, sem fengin er hjá TCW Asset Management Company, verður nýtt til að fjármagna fyrsta áfanga í byggingu jarðhitavers Blue Mountain, „Faulkner 1." Framleiðslugeta orkuversins verður 49,5 MW og verður raforkan seld til Nevada Power Company með samningi til 20 ára. Þegar orkuverið tekur til starfa undir lok árs 2009 mun það sjá íbúum í suðurhluta Nevada fyrir 38.8 MW af hreinni, endurnýjanlegri orku, en töluverður vöxtur hefur verið í íbúafjölda á þessu svæði.

Í fréttatilkynningu frá Glitni segir að samningurinn geri fyrirtækinu kleift að hefja framkvæmdir við byggingarfasa verkefnisins, sem marki stórt skref í sögu Nevada Geothermal Power. Glitnir hafi, á sínum tíma, haft milligöngu um lánafyrirgreiðslu til Nevada Geothermal Power að jafnvirði 20 milljóna bandaríkjadala. Það lán hafi verið nýtt til að fjármagna fyrsta hluta jarðorkuversins, borholusvæðið, innri uppbyggingu og ýmsan þróunarkostnað. Með þessu láni sé fyrirtækið nú mun nær því að geta lokið verkefninu og muni þannig brátt sjá suðurhluta Nevada fylkis fyrir nauðsynlegri grunnorku.

Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Glitnis, segir að forsvarsmenn bankans séu mjög stoltir af því að taka þátt í hinum vaxandi jarðhitaiðnaði í Bandaríkjunum og koma að fjármögnun og ráðgjafaþjónustu stórverkefna á borð við Blue Mountain.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×