Innlent

Vill styttri opnunartíma og dreifðari staði til þess draga úr afbrotum

MYND/Vilhelm

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu telur að með því að fækka skemmtistöðum í miðborginni, stytta opnunartíma, dreifa veitingastöðum meira um borgina og færa skemmtistaði af tiltekinni tegund í iðnaðarhverfi megi draga úr afbrotum í miðborginni og raunar öllu höfuðborgarsvæðinu. Einnig megi með þessu fækka kvörtunum íbúa vegna hávaða og næðis.

Þetta kemur fram í bréfi hans til borgarstjóra sem lagt var fram á borgarráðsfundi í dag. Borgarstjóri kallaði eftir upplýsingum frá lögreglustjóranum í október um þróun ofbeldisbrota og annarra brota í miðborginni frá því að áfengisveitingatíminn var rýmkaður árið 1999.

Afbrotum fjölgaði í fyrra

Fram kemur í bréfi lögreglustjórans að samkvæmt tölum lögreglunnar hafi tíðni ofbeldisbrota, fíkniefnabrota, auðgunarbrota, eignaspjalla, nytjastulda og kynferðisbrota í miðborginni aukist árið 2007 í samanburði við meðaltal áranna 2004-2006. Þá hefur tilkynningum vegna hávaða fjölgað á síðustu árum.

Lögreglustjórinn bendir á að miðborgin skeri sig úr varðandi afbrotatíðni á höfuðborgarsvæðinu en rúmlega þriðjungur brota eigi sér stað þar. Þau afbrot séu að stórum hluta bundin við ákveðinn tíma „en samkvæmt tölum lögeglu aukast ofbeldisbrot, áfengislagabrot og kvartanir vegna hávaða verulega að næturlagi um helgar. Mikill meirihluti brota og verkefna lögreglu í miðborginni er á tímabilinu frá miðnætti til klukkan sex að morgni um helgar í nágrenni við eða inni á vínveitingastöðum," segir í bréfi lögreglustjóra. Þá bendir hann á að tveir af hverjum þremur finni fyrir óöryggi þegar þeir ganga einir í miðborginni að næturlagi um helgar samkvæmt könnunum.

Þarf skýra stefnu um mannlíf í miðborginni

Segir lögreglustjóri að borgaryfirvöld þurfi að marka sér skýra stefnu um mannlíf í miðborg Reykjavíkur. Þar skuli skilgreina hvar skemmistaðir skuli vera staðsettir, hversu nálægt skemmtistaðir af tiltekinni tegund og með rúman opnunartíma megi vera íbúðabyggð, hvernig opnunartíma eigi almennt að vera háttað og hvaða kröfur eigi að gera um öryggi á og við staðina.

„Meiri dreifing skemmtistaða í höfuðborginni með tilheyrandi sveigjanlegum opnunartíma og fækkun skemmistaða í miðborginni og breyting á opnunartíma þeirra eru allt nauðsynlegar aðgerðir til að takast á við þann vanda sem við er að etja í miðborginni. Vinna þarf að þeim breytingum með því m.a. að bjóða upp á rýmri opnunartíma skemmistaða á svæðum sem eru æskilegri til slíks skemmtanahalds. Er þá átt við iðnaðar- og þjónustusvæði sem eru víðs vegar í höfðuborginni," segir lögreglustjóri.

Segir lögreglustjóri að embætti hans sé reiðubúið að koma að frekari vinnslu hugmynda og aðstæða við útfærslu þeirra auk þess sem embættið muni áfram fylgjast með þróun mála.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×