Skoðun

Kæri sáli

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar

Ég verð að játa það að ég varð hálfskelkuð og óttaslegin til að byrja með eins og gengur og gerist þegar einhver verður fyrir áföllum. En nú er bara uppi á mér typpið, kæri sáli. Þótt ótrúlegt megi virðast.

Það er nefnilega eins og einhver ljái mér æðri kraft þegar örlögin ota mér á hólminn með þeim orðum að nú sé að duga eða drepast. Þá verða hlutirnir spennandi.

Já, sáli minn, spennandi því þá rennur upp sá tími að menn verða ekki dæmdir af skala hégómans því nú á að athuga úr hverju menn eru gerðir. Takmark stjórnmálamanna verður æðra en svo að ná því að ganga í augun á kjósendum.

Fólk verður meðvitað um það að atburðarásin sem komin er af stað hverfur þeim aldrei úr minni. Hvert andartak verður dýrmætt. Hjartað tekur kipp þegar ég sé fólk ganga fram af vaskleika eins og Steingrímur rauði gerði í sinni opnunarræðu á þessu þingi. Eða þegar Þorgerður hin fagra segir fyrrverandi yfirmanni sínum að hafa sig hægan í stað þess að vera með upphlaup á túni sem tilheyri honum ekki lengur. Ég kætist og minnist þess að hæfni skipstjórans kemur í ljós í brælunni.

Ég er nefnilega ekkert venjuleg þjóð, kæri sáli. Þér væri hollt að minnast þess að þegar hér tíðkuðust hin breiðu spjótin þá höfðu menn uppi spakmæli og jafnvel gamanyrði meðan ódauðleg sálin lak út um munnvikin.

Já, sáli minn, ég sagði að það væri uppi á mér typpið enda hefur það aldrei verið tengt gengi krónunnar. Sem betur fer því ég veit satt að segja ekkert um það hver gengisvísitalan verður næstu misserin. Um hina náttúrulegu gengisvísitölu þykist ég þó vita nokkuð meira. Því víst er að manndóm hef ég mikinn, kapp hefur mig aldrei skort, gamansemi á ég nóga en það er afar dýrmætt á tímum sem þessum. Svo hef ég blessunarlega mikið af náungakærleika og brjóstviti.

Ástandið á mörkuðum er einmitt þannig nú um mundir að þessir mannkostir mínir eiga eftir að rjúka upp og typpið með.






Skoðun

Sjá meira


×