Handbolti

Spennustigið fór með strákana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
Aron Kristjánsson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

„Ég skrifa þennan leik á yfirspennu hjá okkar mönnum. Því miður, því þetta sænska lið er alls ekki betra en okkar lið," sagði Aron Kristjánsson, einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

Það er erfitt að finna helstu ástæðuna fyrir því hvað fór úrskeðis hjá strákunum okkar í kvöld sem töpuðu illa fyrir Svíum, 24-19, eftir að hafa verið mest tíu mörkum undir í seinni hálfleik.

Aron segir að spennustigið hafi verið helsta orsökin. „Þegar svo margir góðir og reyndir leikmenn klikka er ekki um annað að ræða. Það voru ekki bara einn eða tveir leikmenn sem klikkuðu, heldur bara öll línan."

Hann segir að íslenska vörnin hafi byrjað mjög vel og það hafi komið sænska liðinu í opna skjöldu.

„Mér fannst varnaraðferðin sem Alfreð lagði upp með heppnast mjög vel. 5-1 vörnin á móti Blomquist kom þeim á óvart sem og að Kim Andersson var tekinn úr umferð í hraðaupphlaupunum. Þeir voru greinilega búnir að æfa sóknarleikinn sinn á móti 6-0 vörn eða þegar Andersson fær 5-1 vörn á móti sér."

„Vegna þessa náum við að koma okkur í gott færi sem við náðum ekki að nýta. Við klúðruðum mörgum dauðafærum í sókninni og misstum boltann klaufalega þess á milli. Við náðum aldrei að koma okkur í það forskot sem við áttum kost á. Þá hefðu leikmenn kannski náð að hrista af sér yfirspennuna."

Það er gömul saga og ný að sænskir markverðir reynist íslenska handboltalandsliðinu illkleifur múr en sú var staðreyndin í kvöld.

„Menn urðu hreinlega óöruggir fyrir framan Tomas Svensson í markinu. Logi reyndi að skjóta í upphafi en það voru óyfirveguð skot og ekki í miklu samspili við aðra. Annars vorum við ekkert að skjóta utan af velli í fyrri hálfleik og vorum lítið að opna fyrir hornin. Við stóðum langt frá vörninni og vorum ekki nægilega beittir í öllum okkar sóknaraðgerðum."

Ólafur Stefánsson náði sér ekki á strik í kvöld frekar en aðrir leikmenn í sókninni en hann er drifkrafturinn í öllum sóknaraðgerðum liðsins.

„Ég hefði viljað að Ólafur hefði verið grimmari í því að leita upp færi fyrir sjálfan sig í upphafi leiksins. Hann var mikið að leita samherja sína uppi en um leið opnaðist skotfæri fyrir hann sem hann hefði mátt nýta sér. Auk þes hefði losnað meira um aðra leikmenn, eins og Róbert, ef fleiri mörk hefði komið utan af velli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×