Viðskipti innlent

Harður viðsnúningur að verða í íslenska efnahagslífinu

Greining Glitnis segir að hraður viðsnúningur sé nú að verða í íslensku efnahagslífi eftir þensluskeið sem virðist hafa verið öllu stærra í sniðum undanfarin misseri en áður var talið.

Greining fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Hagstofan birti í morgun bráðabirgðatölur fyrir landsframleiðslu á 2. fjórðungi þessa árs ásamt endurskoðun fyrir árið 2007 og fyrsta fjórðung ársins. Samkvæmt bráðabirgðatölunum var hagvöxtur á 2. ársfjórðungi 5% miðað við sama fjórðung síðasta árs.

Greining segir að vöxturinn sé fyrst og fremst til kominn vegna jákvæðs viðsnúnings í utanríkisviðskiptum, en útflutningur vöru og þjónustu jókst um 25% milli ára á meðan innflutningur minnkaði um 12%. Þjóðarútgjöld minnkuðu hins vegar um 8% á milli ára, sem er mesti samdráttur þjóðarútgjalda síðan Hagstofan hóf að taka saman ársfjórðungslega þjóðhagsreikninga árið 1997.

Eftir nær óslitinn myndarlegan vöxt einkaneyslu frá árinu 2003 dróst hún saman um 3,2% á 2. fjórðungi frá sama tíma í fyrra. Var það í samræmi við vísbendingar í hagvísum á borð við þróun greiðslukortaveltu og innflutning einkabifreiða.

Þá dróst fjárfesting saman á fjórðungnum um 25,8% miðað við sama ársfjórðung 2007. Ríflega 30% samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu var í samræmi við væntingar okkar eftir lok stóriðjuframkvæmda, en nærri 27% samdráttur í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði vekur athygli eftir 13,5% samdrátt á 1. ársfjórðungi.

Síðan segir í Morgunkorninu: "Ljóst virðist að óhagstæð fjármögnunarskilyrði, snöggkólnun á íbúðamarkaði og mikið framboð á íbúðarhúsnæði hafi haft skjót áhrif á íbúðafjárfestingu og má gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram. Samneysla eykst hins vegar allmikið líkt og undanfarna fjórðunga, og nam vöxtur hennar á 2. fjórðungi 3,8%."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×