Viðskipti innlent

Segir Kaupþing í lausafjárkreppu í Noregi - Bull, segir Kaupþing

Haft er eftir bankasérfræðingi í viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv að lausafjárstaða Kaupþings í Noregi sé orðin svo slæm að bankinn hringi nú út til viðskiptavina sinna og biðji þá um að auka innlán sín.

Sérfræðingurinn, Tom R. Svendsen hjá Carnegie, segir að þetta bendi til þess að lausafjárkreppa sé í uppsiglingu hjá bankanum í Noregi. Þessu hafnar Christian Almskog markaðsstjóri Kaupþings í Noregi. Christian segir lausafjárstöðuna í góðu lagi en hinsvegar sé bankinn í herferð til að auka markaðshlutdeild sína á norska bankamarkaðinum.

Fram kemur í Dagens Næringsliv að venjulega komi 60-80% af fjármögnun norskra banka frá innlánum í þeim en hjá Kaupþingi sé þetta hlutfall aðeins 36%. Hafi Kaupþing sett sér það markmið að auka hlutfallið í 50% fyrir árslok.

Samkvæmt fréttinni í Dagens Næringliv hringir Kaupþing í alla þá viðskiptavini sína sem eiga minna en 5.000 nkr. inni á reikningum sínum og bjóði þeim betri vaxtakjör ef þeir auki inneign sína.

Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Kaupþings, vísar því alfarið á bug í samtali við Vísi að lausafjárstaða bankans sé slæm. Hér sé aðeins um sölumennsku að ræða. „Í Noregi er verið að auka innlán og þetta er tilboð sem viðskiptavinum okkar er boðið og ekkert óeðlilegt við það. Það er verið að auka markaðshlutdeild í Noregi og keppa um innlán við aðra banka," segir Jónas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×