Viðskipti erlent

Kaupþing lánaði 60 milljarða króna í snekkjur og einkaþotur

Komið hefur í ljós að Singer & Friedlander, dótturbanki Kaupþings í Bretlandi, lánaði 310 miljónir punda eða rúmlega 60 milljarða króna til kaupa á snekkjum og einkaþotum fyrir efnaða Londonbúa.

Samkvæmt frétt um málið á Bloomberg-fréttaveitunni var bankinn með „einkalánabók“ upp á 1,3 milljarða punda og taldi hún 400 viðskiptavini. Af þessari upphæð fóru 219 milljónir punda í að fjármagna snekkjukaup og 90 milljónir punda í að fjármagna einkaþotur. Auk þess kemur fram að 425 milljónir punda voru lánuð til fasteignakaupa.

Þessar upplýsingar koma fram í yfirliti frá endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young sem hefur skráð það hjá Companies House í Bretlandi eða fyrirtækjaskráningu landsins.

„Við erum að fara yfir lánabókina línu fyrir línu," segir í yfirliti Ernst & Young. „Hvernig lántakandinn standi sig, gæði trygginga hans fyrir láninu og möguleika á sölu."

Þá kemur fram að fyrirtækjalánabók S&F var nokkuð minni að vöxtum eða upp á 824 milljónir punda. Þar af voru 16 milljónir punda lánuð til að fjármagna leikmannakaup í ensku úrvalsdeildinni.

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×