Viðskipti innlent

Kaupþing í Lúxemborg seldur til Líbýu

Líbýskur fjárfestingarbanki í ríkiseign mun eignast Kaupþing í Lúxemborg í næstu viku. Kaupverðið er ekki hátt en fjárfestingarbankinn mun sjá til þess að staðið verður við greiðslur á innistæðum sparifjáreigenda hjá Kaupþingi í Lúxemborg, Sviss og Belgíu.

Við greindum frá því í fréttum okkar fyrr í vikunni að viðræður um sölu á Kaupþingi í Lúxemborg væru á viðkvæmu stigi.

Fjölmörg tilboð bárust í bankann og hefur fréttastofa heimildir fyrir því að meðal þeirra sem hafi íhugað kaup á bankanum hafi verið hinn þýski Landesbank auk banka í Ísrael og Rússlandi.

Mikil verðmæti felast í því að eiga bankaleyfi í Lúxemborg en um tvö ár tekur að fá tilskilin leyfi. Líbýski fjárfestingarbankinn er sá eini sem nú stendur eftir. Bankinn er í ríkiseign en Líbýa á digran olíusjóð sem hefur verið notaður til fjárfestinga. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að ætlunin hafi verið að ganga frá samningum síðasta föstudag en vegna tæknilegra atriða var því frestað þangað til í næstu viku.

Kaupverðið er ekki hátt en allir samningar hafa miðast að því að forða Kaupþingi frá gjaldþroti en bankinn hefur verið í greiðslustöðvun í rúmar 8 vikur. Yfirvöld í Lúxemborg, Sviss og Belgíu hafa verið með í ráðum en fréttastofa hefur heimildir fyrir því að í kaupsamningnum felist samkomulag um að staðið verði við greiðslur á innistæðum sparifjáreigenda í þessum þremur löndum.

Því hefur málið verið tæknilega flókið en nú virðast samningar vera að nást. Samkvæmt heimildum koma nöfn írönsku bræðranna Vincents og Roberts Tchenguiz sem hafa verið í umfangsmiklum viðskiptum við Kaupþing hér á landi ekki fram í kauptilboðinu.Robert á sæti í stjórn Existu og á um fjögurra prósenta hlut í félaginu en bræðurnir tengjast einnig Libýu í gegnum fjárfestingar sínar. Þá kemur nafn Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, ekki heldur fram í kauptilboðinu.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×