Erlent

Mugabe tilbúinn í borgarastyrjöld

Robert Mugabe, hinn 84. ára gamli leiðtogi Zimbabve.
Robert Mugabe, hinn 84. ára gamli leiðtogi Zimbabve.

Robert Mugabe, núverandi forseti Zimbabwe, segir að tapi hann forsetakosningunum í landinu í lok mánaðarins verði fyrrverandi hermenn tilbúnir að sverfa til stáls. Á fundi sem Mugabe hélt fyrir flokk sinn, ZANU, í dag lét hann þau orð falla að honum hafi verið tjáð af fyrrverandi hermönnum sínum að þeir muni beita skæruhernaði og öðrum ráðum til að steypa Morgan Tsvangirai, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, af stóli, sigri hann Mugabe í forsetakosningunum.

Mugabe segir að Tsvangirai sé ekkert annað en handbendill fyrrverandi nýlenduherranna frá Bretlandi. Kjósi Zimbabve-búar Tsvangirai er ekki verið að gera annað en að koma landinu aftur í hendur hvítra manna að mati Mugabe.

Mugabe ásamt stjórnarflokki sínum hefur verið við völd í Zimbabwe allt frá því að landið hlaut sjálfstæði árið 1980. Flokkur hans tapaði í fyrsta skiptið í kosningum í landinu í mars síðastliðnum gegn aðalstjórnarandstöðuflokknum, MDC sem er undir stjórn Tsvangirai. Tsvangirai tókst hins vegar ekki að ná meirihluta atkvæða í fyrri umferð forsetakosninganna og því fer önnur umferð fram 29. júní.

Aðdragandi kosninganna hefur verið vægast sagt vafasamur og þykja menn Mugabe beita einkar óheiðarlegum og ósvífnum aðferðum. Aðilar frá Vesturlöndum hafa gagnrýnt ástandið gríðarlega en sjálfur segir Tsvangirai að 66 af hans mönnum hafi verið líflátnir á stuttum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×