Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan aldrei hækkað jafnmikið á einum degi

„Glæsilegar fréttir,“ segir Þórður Friðjónsson.
„Glæsilegar fréttir,“ segir Þórður Friðjónsson. MYND/GVA

Hlutabréf í Kauphöll Íslands hækkuðu umtalsvert í dag og enn fremur styrktist gengi krónunnar allnokkuð. Alls hækkaði úrvalsvísitalan um 6,16 prósent og stendur hún nú í 4.835 stigum. Hefur vísitalan aldrei hækkað jafnmikið á einum degi. Þórður Friðjónsson segir þetta glæsilegar fréttir.

„Þetta eru glæsilegar fréttir,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar í samtali við Vísi. „Gengið fór hratt upp strax í morgun og eftir það sem á undan er gengið er þetta góður dagur.“ Aðspurður hvort hann telji að framhald verði á hækkunum segir Þórður að í Kauphöllinni spái menn ekki fyrir um slíkt.  „Framhaldið helgast væntanlega af því sem gerist erlendis. Hlutabréf hafa hins vegar lækkað heldur meira hér á landi á árinu miðað við önnur lönd þannig að það gæti verið að þau komi þá hraðar til baka hér en annars staðar. En ég spái ekki fyrir um slíkt,“ segir Þórður Friðjónsson.

Kaupþing banki hækkaði mest allra félaga, eða um rúm 9,4 prósent, en þar á eftir kom Marel sem hækkaði um 8,38 prósent og Færeyjabankinn hækkaði um 7,86 prósent. Enn fremur hækkaði Glitnir um 5,59 prósent og Landsbankinn um 5,28 prósent. Hins vegar lækkuðu bréf í Century Aluminum Company mest, eða um tvö prósent.

Þessu til viðbótar styrktist gengi krónunnar um 2,85 prósent eftir mikla lækkunarhrinu undanfarna daga. Stendur gengisvísitalan í 152,5 stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×