Viðskipti innlent

Spáir áframhaldandi sviptingum á verðbréfamörkuðum

Hlutabréf í Kauphöllinni hafa fallið um 3,5 prósent í dag eftir að tilkynnt var um gjaldþrot bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers. Viðskiptabankarnir hafa allir fallið í verði og þá lækkuðu hlutabréf í Eimskipafélaginu um 25 prósent við opnun markaðar. Krónan hefur veikst um 2 prósent. Forstjóri Kauphallarinnar spáir áframhaldandi sviptingum á verðbréfamörkuðum.

Úrvalsvísitalan hefur verið í frjálsu falli frá því opnað var fyrir viðskipti með hlutabréf í morgun. Strax á fyrstu mínútum féll vísitalan um 2,56 prósent og rétt fyrir fréttir var hún alls búin lækka um 3,5 prósent.

Fréttir um gjaldþrot bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers hefur valdið titringi á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum og ljóst að áhrifanna gætir einnig hér á landi. Hlutabréf í viðskiptabönkunum hafa fallið í verði og þá hefur krónan veikst um 2 prósent í morgun.

Eimskipafélagið hefur þó fallið mest. Við opnun markaðar féll félagið um 25 prósent en rétt fyrir fréttir nam lækkunin tæpum nítján prósentum. Miklar vangaveltur hafa verið uppi um stöðu félagsins og um helgina boðaði stjórn þess rannsókn á rekstri félagsins.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, boðar áframhaldandi sviptingar á mörkuðum. „Það er greinilegt að það verða sviptingar áfram á mörkuðum. Auðvitað eru þetta mjög alvarleg tíðindi sem hafa verið að gerast í Bandarílkjunum og framhald á leiðindatíðindum í lengri tíma. Hins vegar geri ég ráð fyrir því að menn vinni sig út úr þessu og ég sé ekki ástæðu að leggjast í bolmóð þó að gefi aðeins á við þessar breytingar," segir Þórður.

Aðspurður hvaða afleiðingar hann telji að þetta kunni að hafa segir Þórður að þetta valdi enn þá meira óöryggi á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði. „Lehman hefur ekki verið umsvifamikið hér en reyndar það breytir því ekki að lánveitendur alls staðar út um heim verða enn þá meira á varðbergi heldur en þeir hafa verið og þykir mönnum kannski nóg um eins og ástandið hefur verið á síðustu misserum," segir Þórður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×