Viðskipti innlent

Magnús Stephensen: Ömurleg lífsreynsla að lenda í svona gjaldþroti

Magnús Stephensen.
Magnús Stephensen.

Magnús Stephensen hluthafi og stjórnarmaður í XL Leisure Group , sem varð gjaldþrota í síðustu viku, segist ekki óska neinum þess að ganga í gegnum gjaldþrot af þessari stærðargráðu því það sé ömurleg lífsreynsla.

„Ég vona að enginn þurfi að ganga í gegnum svona gjaldþrot af þessari stærðargráðu því það er ömurleg lífsreynsla og þá sérstaklega gagnvart þeim 1700 starfsmönnum sem misstu vinnuna," segir Magnús í samtali við Vísi.

XL Leisure Group þarf ekki að óttast skaðabótamál frá strönduðum ferðalöngum þar sem félagið var tryggt gegn slíkum skallaföllum. „Við vorum fulltryggðir og þegar við vissum í hvað stefndi þá var hvert einasta skref í málinu tekið í full samráði við okkar lögfræðinga og bresk flugmálayfirvöld. Það er alveg ljóst að þeir ferðalangar sem urðu fyrir tjóni vegna gjaldþrotsins eru tryggðir í topp," segir Magnús og bætir við að stjórn félagsins hafi farið fram á að öll innkoma af sölu pakkaferða og farmiðasölu fáeinum dögum fyrir gjaldþrot yrði lagt inn á sérstakan reikning sem ekki yrði nýttur til rekstar. Þessir peningar verða endurgreiddir þeim ferðalöngum sem urðu fyrir skakkaföllum vegna gjaldþrotsins.

Mikið hefur verið rætt og ritað um þá 26 milljarða ábyrgð sem Eimskip var í fyrir láni eigenda XL í Landsbankanum, ábyrgð sem feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson tóku yfir og fellur nú á Eimskip.

„Ég vil bara að það komi fram að við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að endurfjármagna fyrirtækið en því miður eru markaðsaðstæður þannig í dag að það reyndist ógerlegt," segir Magnús.

Magnús var í hópnum sem keypti XL Leisure Group af Eimskip í lok október 2006 og kom nýr inn í stjórn fyrirtæksins í nóvember sama ár. Hvað varðar eigin stöðu segir Magnús að hann hafi aðeins verið lítill hluthafi en beri þó sínar skyldur og sína ábyrgð. „Ég tapaði peningum á þessu en sem betur fer hef ég líka verið í fjárfestingum annars staðar," segir Magnús.

Aðspurður hvað taki við segir Magnús að nú liggi fyrir að eyða tíma með konu og börnum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×