Viðskipti innlent

Niðursveiflan erlendis kom við kaunin á lífeyrissjóðum

Lífeyrissjóðir á Íslandi fara ekki varhluta af þeim óróa sem ríkt hefur á fjármálamörkuðum erlendis að undanförnu. Hinsvegar telja forráðamenn tveggja stærstu sjóðanna að þótt óróinn komi við kaunin hjá þeim sé það ekki umfram það sem gengur og gerist hjá öllum öðrum sem fjárfest hafa í erlendum bréfum og sjóðum.

Tveir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi, eru með tæplega þriðjung af eignum sínum í erlendum sjóðum og hlutabréfum miðað við síðustu áramót. Í safninu hjá Gildi er að finna nöfn banka eins og Lehman Brothers sem nú er gjaldþrota og Morgan Stanley sem ekki er talinn standa vel að vígi í dag.

Hjá Gildi um áramótin voru eignir í sjóðum og bréfum erlendis um 70 milljarðar króna af 240 milljarða heildarfjárfestingum sjóðsins. Hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna voru þetta 84 miljarðar af 260 milljörðum króna.

Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri Gildis segir í samtali við Vísi að hvað Lehman Brothers varðar sé þar um eignastýringarsjóðað ræða sem var á vegum Lehman og að þeir muni ekki tapa því fé sem nemur 1,4 milljörðum kr. Gildi hefur þar að auki fjárfest beint í hlutabréfasjóði á vegum Morgan Stanley upp á tæpa 6 milljarða kr.

„Þessar tölur eru frá síðustu áramótum og frá þeim tíma höfum við minnkað mjög erlenda áhættu okkar og skipt yfir í ríkisbréf," segir Árni.

Þorgeir Eyjólfsson forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna segir að þeir hafi ekki farið varhluta af óróanum sem ríkt hefur á mörkuðum erlendis. Aðspurður segir Þorgeir að þeir hafi það fyrir reglu að ræða ekki um einstakar fjárfestingar hjá sér. Hinsvegar hafi lífeyrissjóðurinn ekki verið með fjármuni í vörslu hjá Lehman Brothers eða Morgan Stanley.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×