Erlent

Sölumaður stolinna líkamshluta iðrast

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Myndin tengist ekki þessari frétt.
Myndin tengist ekki þessari frétt. MYND/AP

Tannlæknir í New Jersey, sem er ákærður fyrir að selja stolna líkamshluta, horfðist í dag í augu við ættingja þeirra sem hann seldi hluta af. Þetta gerðist í réttarsal í New York-ríki. Tannlæknirinn, Michael Mastromarino, játaði í mars að stjórna glæpahring sem stal hlutum af yfir 1.000 líkum í útfararheimilum og seldi læknum til í- eða ágræðslu.

Mastromarino bað ættingjana afsökunar og sagðist iðrast þess að hafa orsakað svo mikla þjáningu. Talið er að verslun með líkamshlutana hafi velt um 4,6 milljónum bandaríkjadala, jafnvirði tæpra 366 milljóna króna. Meðal ákæruatriða eru líkþjófnaður, aflimun við ónógar hreinlætisaðstæður, ólögmætir viðskiptahættir og fleira.

Mastromarino hefur játað sök í málinu og þrýsta ættingjar hinna látnu á dómsyfirvöld að fella lífstíðardóm. Meðal þeirra jarðnesku leifa sem urðu fyrir barðinu á sölumönnunum óprúttnu voru leifar breska blaðamannsins Alistair Cooke.

Reuters greindi frá.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×