Viðskipti erlent

Danske Bank nefndur sem kaupandi að Carnegie

Danske Bank hefur verið nefndur sem hugsanlegur kaupandi Carnegie fjárfestingabankans. Sænska ríkið vill losa sig við Carnegie hið fyrsta en bankinn var þjóðnýttur í gær, mánudag.

Í frétt um málið á börsen.dk er haft eftir Peter Normann, sem vænst er að sænska ríkið útnefni sem forstjóra bankans, að fyrstu áætlanir geri ráð fyrir að bankinn verði seldur í heilu lagi.

Normann á von á því að salan á Carnegie muni liggja ljós fyrir á næstu vikum enda telur hann að áhugi sé fyrir kaupunum. Sérfræðingar eru ekki sammála um að auðvelt verði að selja bankann í heilu lagi en telja að verulegur áhugi sé á einstökum deildum hans.

Þannig telur Mats Anderson óháður bankagreinandi að líklegast muni Carnegie verða seldur í bútum. Hann nefnir að SEB, Danske Bank og DNB Nor muni að öllum líkindum bítast um eignastýringardeild Carnegie.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×