Viðskipti innlent

Verulega hefur dregið úr neyslu íslenskra heimila

Verulega hefur dregið úr neyslu íslenskra heimila að undanförnu. Velta debetkorta í innlendri verslun að viðbættri kreditkortaveltu dróst saman um 14% í ágúst frá sama mánuði í fyrra, ef veltan er raunvirt með vísitölu neysluverðs án húsnæðis og gengisvísitölu, og fyrirtækjakort frátalin.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að íslensk heimili rifa nú seglin í neyslu sinni enda hefur kaupmáttur skroppið saman, greiðslubyrði lána aukist, aðgangur að lánsfé versnað og horfur í efnahags- og atvinnulífinu dökknað verulega það sem af er ári. Þessi þróun endurspeglast í tölum um greiðslukortaveltu sem Seðlabankinn birti í gær.

Þetta er fjórði samfelldi mánuður sem raunvirt greiðslukortavelta dregst saman en viðsnúningur hófst í maí síðastliðnum. Hinsvegar var enn góður vöxtur á fyrstu fjórum mánuðum ársins en þá jókst veltan um 7% að meðaltali.

Tölur Seðlabankans um greiðslukortaveltu gefa sterka vísbendingu um þróun einkaneyslu en samkvæmt tölum Hagstofunnar dróst einkaneysla saman um 3% á 2. ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Raunvirt greiðslukortavelta minnkaði á sama tíma um 4,5%.

Síðan segir í Morgunkorni: „Ef marka má greiðslukortaveltu í júlí og ágúst má búast við að einkaneysla dragist talsvert meira saman á 3. ársfjórðungi. Þessi þróun er í samdæmi við væntingar okkar en við eigum von á von á að frekari samdráttur verði í einkaneyslu það sem eftir lifir þessa árs og á því næsta."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×