Viðskipti innlent

Kaupþing lánaði fyrir Lehman-bréfum í Svíþjóð

Kaupþing í Svíþjóð lánaði sparifjáreigendum þar í landi fyrir kaupum á skuldabréfum í Lehman Brothers. Að sögn sænskra fjölmiðla gætu sænskir sparifjáreigendur tapað einum milljarði skr. á bréfunum eða sem nemur tæpum 14 milljörðum kr.

Það var fjárfestingafélagið Acta Kapitalförvalting í Svíþjóð sem bauð sænskum sparifjáreigendum þessi skuldabréf til sölu. Fram kemur í frétt á vefsíðu Affärvärlden að sparifjáreigendur hafi í stórum stíl getað keypt þessi bréf með lánum frá Kaupþing. Lánin voru veitt með veði í bréfunum.

Haft er eftir Peter Borsos upplýsingafulltrúa Kaupþings í Svíþjóð að ofsnemmt sé að segja til um hvort og hvernig gjaldþrot Lehman Brothers muni hafa áhrif á þessi bréf.

Kaupþing segir að málið sé í biðstöðu meðan örlög Lehman Brothers eru ekki ráðin. Til dæmis megi benda á fréttir um að Barclays vilji kaupa verðbréfadeild Lehmans og ef það gerist er engin áhætta í spilunum fyrir Kaupþing.

Þá er bent á að fari svo að Lehman Brothers verði gert upp megi reikna með að skuldabréf eins og þau sem hér um ræðir verði framarlega í hópi kröfuhafa í þrotabúið.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×