Innlent

Verkalýðsforysta reynir að lágmarka skaðann

Þúsundir Íslendinga hafa misst vinnuna það sem af er árinu en óttast er að það sé einungis lognið á undan storminum. Verkalýðsforystan berst í bökkum við að lágmarka skaðann og þrýstir á stjórnvöld að halda atvinnulífinu gangandi.

Verkalýðsforystan reynir nú að þrýsta á um að skaði lífeyrissjóðanna verði lágmarkaður sem og eigenda sparifjár, sem talið var trú um að sjóðir bankanna væru vel tryggðir, og ekki síst að hér verði áfram atvinnulíf.

Um 1500 manns hefur verið sagt upp störfum með hópuppsögnum það sem af er árinu. Þessi tala segir ekki alla söguna því ætla má að svipuðum fjölda hafi verið sagt upp í smærri fyrirtækjum. Þær uppsagnir rata ekki í fjölmiðla nema í mýflugumynd.

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ telur að nokkur þúsund manna séu án atvinnu og framhaldið virðist ekki gæfulegt. „Hins vegar er það þannig að ef okkur tekst ekki að halda atvinnulífinu gangandi, sem er gríðarlega mikilvægt, þá er klárt mál að æði mörg fyrirtæki verða gjaldþrota og þá er ekki spurning um einhverja mánuði í uppsagnarfrest, þá er fólk atvinnulaust á stundinni," segir Grétar.

Á næstu dögum kemur í ljós hvernig verkalýðshreyfingin í samvinnu við Vinnumálastofnun og félagsmálaráðuneytið ætlar að lágmarka skaðann og styðja við fólk þegar og ef holskefla gjaldþrota og uppsagna gengur yfir. „Þó það yrði ekkert meira atvinnuleysi en maður sér fyrir núna þá er auðvitað mikil þörf á að reyna að styðja félaga sína og svo sem allan almenning því það voru sett neyðarlög fyrir rúmri viku og neyðarlög eru ekki sett nema það sé neyðarástand," segir Grétar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×