Innlent

Myntkörfulán bankamálaráðherra hefur hækkað um 25 milljónir

Ráðherrarnir tólf í ríkisstjórn Íslands skulda að meðaltali rétt rúmar sextán milljónir í húsum sínum. Þau eru að meðaltali 217 fermetrar og verðmæti þeirra um 65 milljónir. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra er sá eini sem er með myntkörfulán. Það hefur hækkað um 25 milljónir á einu ári.

Ráðherrar hafa úrslitavald þegar kemur að því að ákveða aðgerðir fyrir heimilanna í landinu sem blæðir ýmist vegna verðtryggingar eða myntkörfulána. Allt skal vera uppi á borðinu og því hefur Fréttastofa Stöðvar skoðað stöðuna á íbúðalánum ráðherranna og húnsæði þeirra.

Geir H. Haarde forsætisráðherra er eini ráðherrann sem er ekki með áhvílandi lán á húsi sínu. Björn Bjarnason stendur honum reyndar ekki langt að baki því rétt rúmlega tólf þúsund krónur eru áhvílandi á einbýlishúsi hans í Hlíðunum.

Björgvin G. Sigurðsson er eini ráðherrann sem er með myntkörfulán. Lán Björgvins er í japönskum yenum og svissneskum frönkum og hefur hækkað um 25 milljónir á einu ári.

Þórunn Sveinbjarnardóttir og Össur Skarphéðinssson eru einu ráðherrarnir sem búa í blokk. Sjö ráðherrar búa í einbýlishúsum, tveir í raðhúsum og Jóhanna Sigurðardóttir býr á hæð í Vesturbæ.

Kristján Möller býr í stærsta húsinu en einbýlishús hans og fjölskyldu við Marbakkabraut í Kópavogi er 313 fermetrar. Þórunn Sveinbjarnardóttir býr í minnsta húsnæðinu en blokkaríbúð hennar í Arnarási í Garðabæ er rétt tæpir 94 fermetrar.

Árni Matthiesen er síðasti ráðherrann sem tók lán en hann skellti 27 milljóna lífeyrissjóðsláni á húsið sitt í ágúst á þessu ári.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er eini ráðherrann sem er með íbúðalán hjá Kaupþingi.

Það skal tekið fram að staða áhvílandi lána er staðan á þeim þegar þau voru tekin en endurspeglar ekki raunverulega stöðu þeirra í dag sem er hærri. Markaðsvirði er miðað við verð á sambærilegum eignum á vef Félags fasteignasala.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×