Innlent

Slagveður og átta stiga hiti á aðfangadag

sev skrifar
Siggi segir of snemmt að segja til um hvað veðurguðirnir ætla að gera af sér um áramótin.
Siggi segir of snemmt að segja til um hvað veðurguðirnir ætla að gera af sér um áramótin.

Það verður ekki glæsilegt jólaveðrið ef marka má spá Sigurðar „Storms" Ragnarssonar veðurfræðings Stöðvar 2. Átta stiga hiti, rigning og hávaðarok.

Síðustu daga þótti örlítil glæta á því að snjólög norðanlands lifðu slagveðrið af, en Siggi segir alveg útséð um að svo verði ekki.

„Það þarf enginn að skafa af framrúðunni á aðfangadag," segir Siggi, sem býst við því að landsmenn þurfi að tala hátt yfir jólamatnum til að yfirgnæfa hávaðann í rigningunni sem lemur gluggana. Því miður hefur Siggi undanfarin ár reynst afar sannspár hvað jólaveðrið varðar.

Spákortið fyrir aðfangadag.

Siggi segir ekki alla von úti enn. Á jóladag sé útlit fyrir að kólni, og því örlítil vonarglæta að landsmenn fái að njóta hvítra jóla þann daginn. Veðurguðirnir bjóða þó ekki upp á neina mjúka og jólalega kattaloppudrífu, því líklega verður ofankomin í formi élja.

Siggi segir of snemmt að segja til um hvað veðurguðirnir ætla að gera af sér um áramótin, en er vongóður á að þeir bjóði upp á eitthvað betra en jólaveðrið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×