Innlent

Frumvarpi um rannsóknarnefnd dreift á þingi

Frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna hefur verið dreift til þingmanna. Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, mun flytja frumvarpið á morgun en flutningsmenn þess eru formenn allra flokka á Alþingi.

Í nefndinni eiga að vera einn dómari frá Hæstarétti sem verður formaður nefndarinnar. Umboðsmaður Alþingis skal einnig sitja í nefndinni. Þá skal forsætisnefnd Alþingis skipa sérfræðing með víðtæka þekkingu á málum og einnig skal rannsóknarnefndin skipa sérstakan vinnuhóp með fulltrúum innlendra og/eða erlendra sérfræðinga sem séu nefndinni til aðstoðar eða sinni ákveðnum rannsóknarverkefnum.

Í fyrstu grein laganna segir að tilgangur þeirra sé að sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis leiti sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. „Þá skal hún leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því."

Nefndinni eru lögð fyrir sex verkefni: Að varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir þess vanda íslenska bankakerfisins sem varð Alþingi tilefni til að setja lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

Að gera úttekt á reglum íslenskra laga um fjármálamarkaðinn í samanburði við reglur annarra landa og framkvæmd stjórnvalda á þeim.

Að leggja mat á hvernig staðið hafi verið að eftirliti með fjármálastarfsemi hér á landi á síðustu árum og upplýsingagjöf af því tilefni milli stjórnvalda, til ríkisstjórnar og til Alþingis.

Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera íslenskt fjármálakerfi færara um að bregðast við þróun og breytingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Að gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.

Að lokum segir að nefndin eigi að skila Alþingi skýrslu um rannsóknina ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.

Í þriðju grein frumvarpsins segir að nefndin skuli birta opinberlega „upplýsingar um hlutabréfaeign nefndarmanna í fjármálafyrirtækjum sem aðgerðir stjórnvalda samkvæmt lögum nr. 125/2008 hafa tekið til, skuldir þeirra við þau, svo og starfsleg tengsl þeirra, maka þeirra og náinna skyldmenna þeirra við þá sem sinnt hafa stjórnunarstörfum í umræddum fjármálafyrirtækjum eða þeim stofnunum ríkisins sem rannsókn nefndarinnar beinist að. Sama gildir um önnur atriði sem haft geta áhrif á sérstakt hæfi nefndarmanna. Upplýsingar þessar skulu miðast við síðastliðin fimm ár fyrir gildistöku laganna, fjárhæðir sem eru yfir fimm milljónir króna og einnig eignarhluta umfram þá fjárhæð í félögum sem átt hafa hluti í umræddum fjármálafyrirtækjum 1. september 2008."

Nefndin fær, samkvæmt frumvarpinu, víðtækar heimildir en í sjöttu grein segir: „ Sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn og skýringar sem hún fer fram á. Með gögnum er meðal annars átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samninga og önnur gögn sem nefndin óskar eftir í þágu rannsóknarinnar.

Nefndinni er heimilt að kalla einstaklinga til funda við sig til að afla munnlegra upplýsinga í þágu rannsóknarinnar og er viðkomandi þá skylt að mæta. Heimilt er að taka það sem fer fram á slíkum fundum upp á hljóð- eða myndband.

Skylt er að verða við kröfu rannsóknarnefndar um að veita upplýsingar þó að þær séu háðar þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, sérstökum reglum um utanríkismál, öryggi ríkisins eða fundargerðir ríkisstjórnar og ráðherrafunda og fundargerðir nefnda Alþingis. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki."

Í tólftu grein segir að óheimilt sé að láta mann sem lætur nefndinni í té upplýsingar gjalda þess á nokkurn hátt í sínu starfi. Þá er gert ráð fyrir því að sá sem láti einhver nefndinni í té upplýsingar gegn því að hann verði ekki ákærður er nefndinni heimilt að óska eftir því við ríkissaksóknara að hann ákveði að viðkomandi sæti ekki ákæru.

Stefnt skal að því að endanlegri skýrslu um rannsókn nefndarinnar verði skilað til Alþingis eigi síðar en 1. nóvember 2009.

Frumvarpið má sjá í heild sinni hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×