Viðskipti erlent

Ljóst að framundan er mikill skortur á lánsfjármagni

Viðskiptaráð segir ljóst að mikill skortur sé framundan á lánsfjármagni til íslenskra fyrirtækja og heimila. Þetta er eitt af því sem fram komi í yfirlýsingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og íslenskra stjórnvalda í tengslum við lánveitingu IMF til Íslands.

Segir ráðið að helsta áhyggjuefni yfirlýsingarinnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu þær þröngu skorður sem settar eru á lausafé frá Seðlabanka Íslands að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðinu.

„Skilyrði um veðhæfni bréfa hefur verið takmörkuð og gert er ráð fyrir að aukning í lánum frá Seðlabanka til bankakerfisins verði lítil sem engin. Ljóst er að mikill skortur verður á lánsfjármagni til íslenskra fyrirtækja og heimila verði ekkert að gert," segir í tilkynningunni. „Fjárþörf hins opinbera verður mikil á næstunni og því hætt við að enn erfiðara verði fyrir fyrirtæki að nálgast lánsfé en ella. Úr þessu þarf að bæta eins fljótt og auðið er."

Viðskiptaráð segir einnig að það hafi jafnan verið forgangsverkefni hjá IMF að koma alþjóðaviðskiptum og gjaldeyrismálum í horf við fyrsta tækifæri og ljóst er að Ísland er þar engin undantekning. Fleyting krónunnar er eina leiðin til að hægt sé að hefja gjaldeyrisviðskipti með eðlilegum hætti og því skref í rétta átt.

Það er mikilvægt að stjórnvöld leggi ekki upp með að handstýra genginu með of kröftugum hætti og ganga þannig of hratt á gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans. Reynslan hefur sýnt að flestir Seðlabankar mega sín lítils í baráttu við erlenda fjármagnsstrauma.

Lykilatriði í þessu samhengi er að stjórnvöld og atvinnulíf komi eftir fremsta megni í veg fyrir að gengisveiking krónunnar leiði út í verðlag. Með þeim hætti má tryggja að leiðrétting raungengis fari í sem mestum mæli í gegnum styrkingu krónunnar. Að sama skapi er mikilvægt að útflytjendur taki afnámi gjaldeyrishafta fagnandi og hiki ekki við að flytja gjaldeyri sinn heim til Íslands.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×